Verslanir Nettó og Kjörbúðarinnar seldu alls 33,37 tonn af kjöti á fimm dögum í nýafstöðnum desember, samanborið við 28,40 tonn árið á undan. Þessi metárangur í sölu á kjöti náðist meðan tilboð buðust í jólaappdagatali Samkaupa, þar sem vegleg tilboð á jólavörum voru í boði á hverjum degi í desember fram að jólum í Nettó og Kjörbúðinni.
Það má segja að apptilboð og appdagatalið hjá Nettó hafi sannarlega slegið í gegn. Tilboð bjóðast einnig á heilsu- og lífsstílsdögum í Nettó, en líkt og í jólaappdagatalinu sækjast viðskiptavinir í að gera góð kaup á slíkum tyllidögum. Þegar kom að jólaappdagatalinu þá flaug kjötið úr hillunum, en mest seldist af hangikjöti eða 9,20 tonn þann 18. desember þegar 35% appsláttur bauðst af öllu hangikjöti. Líkt og árið áður voru frosnu nautalundirnar gífurlega vinsælar og seldust 5,82 tonn af lundunum á einum degi samanborið við 5,50 tonn árið 2023. Svo vinsælar voru lundirnar að þær seldust upp á mettíma, fyrir hádegi í öllum verslunum.
Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa, segir að neytendur séu á verði þegar kemur að verðlagi í matvöruverslunum, ef til vill meira nú en áður. „Hver sem ástæðan er þá finnum við fyrir því að fólk fylgist betur með því hvaða vörur eru á tilboði og sækja meira í þær en áður. Við sjáum þetta sérstaklega með kjötvörurnar, enda eru þær stór hluti af jólainnkaupunum og jólahaldi flestra, en ásóknin í vítamín og aðrar heilsutengdar vörur er einnig mikil og þá sérstaklega í janúar. Við erum búin að vera með jólaappdagatalið í nokkur ár, en viðbrögðin í ár eru miklu meiri en árin á undan og í rauninni hefur gengið svo vel að á heilsudögum í ár erum við einnig með appdagatal.“
Nefnir hún sem dæmi að þann 19. desember voru verslanir með humar og humarhala á 40% afslætti. „Í fyrra vorum við með humar á tilboði, en í ár seldum við heilu tonni meira af humri en í fyrra, eða 5,40 tonn. Við heyrðum frá okkar viðskiptavinum að þeir hefðu beðið fullir tilhlökkunar að mæta í búðina þennan dag og tryggja sér humar á bestu kjörunum.”
Gunnur segir að notkun á Samkaupaappinu fari sífellt vaxandi, en rúmlega 30.500 manns notuðu appið í desember og söfnuðu sér inneign að verðmæti 127 milljóna. „Það safnast nefnilega allt upp. Þegar þú notar appið í verslunum Samkaupa safnar þú alltaf 2% inneign í hverri verslunarferð. Þegar vörur á apptilboði eru keyptar þá safnast inneignin hraðar upp og þá er hægt að nota hana í næstu verslunarferð og lækka innkaupareikninginn jafnt og þétt, eða þá leyfa henni að safnast upp og nýta í næstu stórinnkaup.“