Gunnur Líf Gunnarsdóttir

Starfsfólk getur til dæmis valið sitt páskaegg í staðinn fyrir að allir fái eins

Fyrirtæki eru hratt að breyta nálgun sinni gagnvart viðskiptavinum og starfsmönnum.

„Við setjum upp sér tilboð fyrir starfsmenn eftir því sem þeir eru að óska eftir og þannig getum við gert það allra besta fyrir þá hverju sinni. Við getum leyft þeim sem dæmi að velja sitt páskaegg í gegnum appið í stað þess að kaupa eins páskaegg fyrir alla og gefa. Fólk getur líka nýtt inneignina í eitthvað annað en páskaegg ef starfsmaðurinn vill ekki meira súkkulaði um páskana,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa um nýtt app sem Samkaup hefur búið til og starfsfólk getur nýtt sér.

Appið virkar þannig að starfsfólk getur nýtt sér sérstök fríðindi og afsláttarkjör í appinu. Meðalávinningurinn í fyrra voru 173.000 krónur á hvern starfsmann og því ljóst að starfsfólk er að nýta sér appið.

„Ég tel þetta vera eitt af því sem mætir okkar fjölbreytta hópi af fólki,“ segir Gunnur.

Í Atvinnulífinu í gær og í dag er fjallað um hvernig fyrirtæki eru hratt að breyta nálgun sinni við viðskiptavini og starfsmenn. Breytingarnar má rekja til tækniþróunar en ekkert síður því sem er að breytast í kjölfar Covid.

Samkeppnin harðnar um gott starfsfólk
Í kjölfar heimsfaraldurs sýna vísbendingar víða um heim að erfiðara verður að ráða fólk í störf eða halda því í störfum miðað við áður.

Þá hefur Atvinnulífið fjallað um það að á Íslandi séu sams konar blikur á lofti, áherslur eru að breytast hratt og valdahlutfallið á milli vinnuveitenda og starfsfólks að breytast.

Þetta þýðir að í dag eru fyrirtæki ekki aðeins að mæta nýjum áskorunum til að bregðast við breyttum þörfum viðskiptavina sinna, heldur einnig að fókusera betur á alla nálgun við starfsfólk.

Samkaupa-appið er dæmi um hvernig fyrirtæki nýtir sér tæknina til að nálgast starfsfólk og umbuna.

Gunnur, sem nýlega fékk viðurkenninguna stjórnandi ársins í flokki millistjórnenda, segir að eitt stærsta verkefna stjórnenda á þessu ári felist einmitt í því að halda í gott fólk og ráða nýtt fólk.

Þar sé samkeppnin meiri nú en nokkru sinni fyrr.

Hún segir tæknina geta hjálpað mikið við að finna nýjar og hagkvæmar leiðir til að gera vel við fólk, umbuna því og auka á starfsánægju þess.

„Og þegar eitthvað verður auðveldara í framkvæmd með tilkomu nýrrar tækni, þá notum við það meira,“ segir Gunnur um appið.

Sjá nánar á visir.is