Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, segir að matvörukeðjur fyrirtækisins hafi á síðustu vikum fengið vel á annað hundrað boð um verðhækkanir sem nema að jafnaði um fimm prósentum. Þessar hækkanir eru ekki enn komnar fram í smásöluverði og fyrirtækið hefur hvatt birgja til að stökkva ekki á „verðhækkanavagninn“ nema af góðri ástæðu.
„Við lítum stöðuna mjög alvarlegum augum,“ segir Gunnar Egill í samtali við Innherja. „Án þess að vera á of svartsýnn á ástandið þá eru skýr teikn á lofti um versnandi verðbólguhorfur og það hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra að missa ekki stjórn á verðbólgunni.“
Verðbólga, sem mældist 5,7 prósent á ársgrundvelli í janúar, er komin vel yfir spár. Næsta vaxtaákvörðun er á miðvikudaginn og samkvæmt könnun Innherja býst afgerandi meirihluti markaðsaðila við því að Seðlabankinn hækki vexti um 75 punkta.
Hækkun á innlendu verðlagi fyrir utan húsnæði, sem er mælikvarði á undirliggjandi verðbólguþrýsting, er komin upp í nærri 5 prósent. Innherji hefur að undanförnu greint frá því að stærstu heildsölur landsins hafi ekki séð eins víðtækar og skarpar verðhækkanir, og þær sem hafa komið frá erlendum framleiðendum og birgjum á síðustu vikum. Sundurliðun á verðbólgumælingunni í janúar bendir til þess að erlendar verðhækkanir eigi að miklu leyti eftir að koma fram hér á landi.
Gunnar Egill segir að verðhækkanir hafi dunið á Samkaupum á undanförnum vikum. „Fyrir áramót voru boðaðar 80 verðbreytingar og núna í janúar og febrúar fengum við aftur 80 boð um verðbreytingar. Í nánast öllum tilfellum eru þetta verðhækkanir,“ segir hann. „Mér sýnist að heilt yfir sé verið að boða 5 prósenta verðhækkanir. Við erum að fá boð um á bilinu 4-6 prósent frá stórum birgjum sem hafa mikið vöruframboð.“
Samkaup rekur verslanir undir merkjum Nettó, Krambúðarinnar, Kjörbúðarinnar og Iceland.
“Við erum að fá boð um [hækkanir] á bilinu 4-6 prósent frá stórum birgjum sem hafa mikið vöruframboð”
Spurður hvort hann búist við frekari hækkunum frá birgjum segir Gunnar Egill að líklega sé megnið gengið yfir. „Birgjar þurfa að boða hækkanir með góðum fyrirvara og við sjáum hækkanir fram í marsmánuð. Ég veit ekki hvað gerist eftir það. Líklega er megnið af verðhækkunum til okkar komið fram, ekki nema erlendar kostnaðarhækkanir haldi áfram.“
Er þessi fimm prósenta meðalhækkun komin fram í smásöluverði?
„Nei, ég held að hún sé ekki komin fram, þetta tekur yfirleitt nokkrar vikur eða mánuði að raungerast,“ segir Gunnar Egill.
Þá bendir hann á að stór óvissuþáttur, sem ræður miklu um verðlagsþróun á næstunni, sé það hvort gengishækkun krónunnar að undanförnu – krónan hefur hækkað um meira en 5 prósent gagnvart evrunni frá því í október – hafi nú þegar dempað verðhækkanir frá heildsölum eða hvort hún muni draga úr verðbólguþrýstingi þegar líður á árið.
Gunnar Egill veltir því upp hvort allir hlekkir í aðfangakeðjunni hafi gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að fresta og milda áhrif verðhækkana. Samkaup hafa frá því í haust búið sig undir hækkunarfasann, til dæmis með því að birgja sig upp af vörum á gömlu verðunum til þess að milda þörfina fyrir verðhækkanir eins og kostur er.
“Við spáum því og höfum verið búa okkur undir að eftirspurn eftir ódýrari valkostum muni aukast.”
„Í öðru lagi sendum við bréf á alla birgja í byrjun desember þar sem við hvöttum þá til að stökkva ekki á verðhækkanavagninn nema þeir hefðu ríka ástæðu til. Við hvöttum þá til að ráðast í hagræðingaraðgerðir, eins og við höfum gert hjá okkur, til þess að sporna við yfirvofandi verðhækkunum,“ útskýrir Gunnar Egill.
„Og í þriðja lagi höfum við í samstarfi við COOP í Danmörku aukið úrval á ódýrari vörum í eins mörgum flokkum og hægt er. Við spáum því og höfum verið búa okkur undir að eftirspurn eftir ódýrari valkostum muni aukast. Eftir fjármálahrunið, þegar verðhækkanir gengu yfir samhliða tekjutapi fólks, sáum við gríðarlega sveiflu frá verðhærri merkjavörum yfir í ódýrari vörur.“