Auk þess að æfa badminton og vinna gullverðlaun á Ólympíuleikunum vinnur hann Ómar í grænmetisdeildinni í Nettó á Ísafirði. Ómar gerði sér lítið fyrir um daginn og vann til gullverðlauna á Ólympíuleikum fatlaðra sem fram fóru í Danmörku í maí síðastliðnum.
Ómar hefur æft badminton frá 8 ára aldri og hefur farið á 5 stórmót erlendis. Hann byrjaði að vinna í Nettó á Ísafirði fyrir 5 árum og hélt áfram að æfa með vinnunni sem hann segir oft vera erfitt en badminton sé bara svo skemmtilegt, að það sé allt í lagi.
Að sögn Ómars var öðruvísi að spila badminton í Danmörku en heima á Ísafirði. Það hafi verið heitara loft þar og miklu fleiri áhorfendur sem gerði hann svolítið stressaðan, en á sama tíma sneggri, svo að hann átti stórgóða leiki á móti andstæðingum sínum sem komu alls staðar að úr heiminum.
Sigmar, verslunarstjóri Nettó á Ísafirði, lýsir Ómari sem ofsalega duglegum starfsmanni sem geri allt sem hann tekur sér fyrir hendur vel og þess vegna hafi það í raun ekki komið á óvart að hann kæmi heim af Ólympíuleikunum með gull um hálsinn.
Það er sönn ánægja að hjá Nettó starfi jafn duglegt starfsfólk og hann Ómar – við erum virkilega stolt af því að hafa Ólympíu-gullverðlaunahafa með okkur í liði.