Nettó verslunum fjölgar á Selfossi

Búist er við margmenni við opnun verslunarinnar við Eyrarveg á Selfossi klukkan 10 á þessum föstudegi en um er að ræða tuttugustu og aðra verslun Nettó sem eru staðsettar um allt land. Samkaup, eigandi Nettó, tók við rýminu í byrjun árs og hafa framkvæmdir staðið yfir síðan þá, en húsnæðið hýsti áður verslun Húsasmiðjunnar. Verða verslanir Nettó nú tvær í sitt hvorum enda bæjarins, en Samkaup reka einnig Krambúð á Selfossi.

„Við höfum fundið fyrir mikilli eftirvæntingu íbúa svæðisins eftir opnun verslunarinnar, en hún er töluvert rýmri en sú sem fyrir er í bænum og verður stærsta Nettó verslunin á öllu Suðurlandi. Það skiptir okkur hjá Samkaupum miklu máli að geta boðið upp á þessa glæsilegu verslun á svæðinu, enda er mikil uppbygging og gróska á Suðurlandi og í Árborg sérstaklega,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs hjá Samkaupum.

Frábært úrval og hagstætt verð

Verð í Nettó hefur hríðlækkað í ár eftir að verðstefna verslunarinnar var endurskoðuð og er Nettó nú eina verslanakeðjan þar sem verð hefur verið lækkað heilt yfir á þessu ári, eins og staðfest hefur verið af verðlagseftirliti ASÍ.

„Nettó er lágvöruverslun og við vonum því að fólk upplifi nýju verslunina sem mikla búbót, hvort sem um er að ræða heimafólk eða þau sem fara um Selfoss til og frá fjarlægari heimabyggðum. Það er alltaf gott að fá enn betri og stærri Nettó verslun í sitt nágrenni. Þá má ekki gleyma því að viðskiptavinir safna inneign í Samkaupaappinu í hverri verslunarferð, sem gerir innkaupin enn hagstæðari,“ segir Gunnur ennfremur.

Búðin er fimmta græna verslun Nettó sem þýðir að allt kapp er lagt á að lágmarka kolefnisspor verslunarinnar. Öll tæki eru keyrð á umhverfisvænum orkumiðli, LED lýsing verður í versluninni, allt sorp flokkað og allir frystar og megnið af kælum lokaðir. Þá er aðgengi að versluninni frábært fyrir akandi, gangandi og þau sem nýta strætó.

Nettó er í eigu Samkaupa og eru verslanir samstæðunnar orðnar rúmlega 60 talsins undir merkjum Nettó, Kjörbúðarinnar, Krambúðarinnar og Iceland. Nettó rekur nú 22 verslanir um allt land og þjónustar viðskiptavini sömuleiðis í netverslun sem býður upp á heimkeyrslu á Akureyri, höfuðborgarsvæðinu, Selfossi og í Reykjanesbæ.