Það komu þreyttir en sáttir krakkar heim í fjörðinn fagra á sunnudagskvöldinu, 5. mars, eftir viðburðaríka helgi í Reykjanesbæ en þar stóð yfir Nettómótið í körfubolta fyrir krakka á aldrinum sex ára (2016) upp í ellefu ára (2012). Alls voru þátttakendur á þessu móti 1080 talsins frá 23 félögum sem mynduðu samtals 221 lið og var spilað í fjórum íþróttahúsum, Blue höllinni og Heiðarskóla í Keflavík og svo Ljónagryfjunni og Akurskóla í Njarðvík.
Tindastóll sendi sjö lið eða 37 þátttakendur á þetta glæsilega mót þar sem dagskráin var þétt setin af bæði kappleikjum og afþreyingu. Krakkarnir spiluðu fjóra til fimm leiki, fengu svo að fara frítt í bíó, sund, kvöldvöku og svo var leiksvæði þar sem búið var að setja upp hoppukastalaveröld þar sem þeir gátu hoppað frá sér síðustu orkudropana. Nettómótið er sett upp á þann veg að ekki eru talin stig eða keppt um sæti heldur er verið að leggja áherslu á að skapa góðar minningar í kringum körfuboltann bæði innanvallar sem utanvallar.
Barna og unglingaráð Körfuknattleiksdeildar Tindastól vill þakka öllum keppendum Tindastól kærlega fyrir að vera sér og félagi sínu til fyrirmyndar.