Nettó mun opna nýja verslun við Sunnukrika í Mosfellsbæ klukkan 12 á morgun. Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, segir að fyrirtækið hafi haft augun á Mosfellsbæ í nokkur ár.
„Staðsetningin er mjög spennandi og með þeim flottu fyrirtækjum og þjónustu sem er í húsinu er ljóst að þjónusta við íbúa mun stórbatna,“ segir Gunnar Egill í fréttatilkynningu.
Í Sunnukrika 3 verður einnig að finna heilsugæslu, apótek, bensíndælur og kjötbúð en opnunartími Nettó verður frá 10-21 alla daga. Hin nýja verslun verður sú átjánda undir merkjum Nettó en Samkaup, móðurfélag Nettó, rekur um 60 verslanir víðs vegar um landið.
„Þetta er önnur græna verslun okkar sem þýðir að öll tæki eru keyrð á umhverfisvænum orkumiðli, LED lýsing er í versluninni, allt sorp er flokkað, allir frystar og megnið af kælum eru lokaðir svo eitthvað sé nefnt. Verslun okkar er rúmgóð með miklum þægindum, björt og vítt til veggja,“ segir Gunnar Egill.
Þá er verið að innleiða vildarkerfi sem gildir í öllum Nettó verslunum sem ber heitið Samkaup í símann og veitir viðskiptavinum fastan afslátt af innkaupum og aðgang að sértilboðum.