„Nettó-breytingin“

Enn halda verslanir Nettó áfram að styrkja stöðu sína á matvörumarkaði, en markviss vinna síðastliðna mánuði hefur skilað sér í lægri verðum, hagkvæmari innkaupum og fjölgun viðskiptavina.  Þetta hefur nú verið staðfest af ytri aðila en samkvæmt nýjustu greiningu Verðlagseftirlits ASÍ er nú vart sjónarmunur á verði í verslunum Nettó, Krónunnar og Bónus.

Í frétt Verðlagseftirlitsins er talað um „Nettó-breytinguna“, frá því að vera 12% yfir lægsta verði að meðaltali í það að vera komið á sama ról og Bónus og Krónan. Af 1363 vörum sem ASÍ fann bæði í Nettó og Krónunni, voru 939 vörur eða 69% þeirra á sama verði hjá Nettó og Krónunni. Af þeim 556 vörum sem finnast í Nettó, Krónunni og Bónus var Nettó í 72% tilfella einni krónu yfir Bónusverði og í 79% tilfella vorum við með sama verð og Krónan. Ekki nóg með það, heldur er Kjörbúðin orðin ódýrari en Extra búðirnar, sem er viðsnúningur frá því sem áður var.

Langbesta verðið með appinu

Svo má ekki gleyma því að þegar fólk notar Samkaupsappið við innkaupin fær það inneign sem nemur 2% af innkaupaverðinu. Þegar það er tekið með í reikninginn er Nettó ódýrari en Krónan og oft ódýrari en Bónus líka.

„Í upphafi árs hófum við hjá Samkaupum vinnu við að endurskoða og breyta verðstefnunni okkar í grundvallaratriðum. Markmiðið var að bjóða viðskiptavinum lægri verð, enda ekki vanþörf á með verðbólguna eins og hún var þá (og er reyndar enn). Það eitt að halda sjó þegar verðhækkanir dundu á okkur úr öllum áttum var nógu erfitt, en með því að fara inn í verkefnið með seigluna að vopni og með augun opin fyrir skapandi lausnum höfum við náð á þann stað sem við erum á núna,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Verslunar- og Mannauðssviðs Samkaupa.

Hún segir að fyrirtækið ætti þennan góða árangur starfsfólki sínu að þakka. „Þetta er ævintýralegur árangur á mjög skömmum tíma og við erum gríðarlega stolt af þeirri vinnu. Þetta hefur verið mikilvægt samstarfsverkefni alls starfsfólks, sem hefur snúist um að lækka kostnað alls staðar þar sem það hefur verið hægt, virkri verðstýringu og breytingum á því hvaðan við fáum vörurnar okkar,“ segir Gunnur.

Þrátt fyrir góðan árangur í október er vinnunni hvergi nærri lokið. „Við erum að sjálfsögðu hvergi hætt, þótt þessum áfanga sé náð, heldur munum halda áfram að bjóða gæðavörur á góðu verði og mæta fólki þar sem það er. Á sama tíma munum við halda áfram að byggja okkur upp sem framúrskarandi valkost fyrir neytendur með lág verð, fyrsta flokks vöruúrval og góða þjónustu.  Við hlökkum til að takast á við næstu verkefni!“