Viðskiptavinir Nettó, Kjörbúða og Krambúða hafa tekið stórauknu úrvali jólabóka afar vel og hefur sala í mörgum verslunum verið margföld á við fyrri ár. Íslenskar glæpasögur tróna efst á listum yfir mest seldu bækurnar.
Fyrir þessi jól ákváðu Samkaup, sem reka verslanir Nettó, Kjörbúða og Krambúða, að styrkja verulega framboð af bókum í verslunum sínum. Sérstök áhersla var lögð á bækur eftir íslenska höfunda og bækur fyrir börn og unglinga.
Átakinu hefur verið gífurlega vel tekið og er sala á bókum mun meiri en á fyrri árum. Í sumum byggðarlögum er að ræða margfalda sölu frá því í fyrra. Hlutfallsleg aukning milli ára er mest hjá Krambúðinni í Búðardal, en söluaukning þar nemur heilum 383%. Þá er er söluaukningin 243% í Kjörbúðinni á Blönduósi, 136% í Nettó Engihjalla og 126% í Kjörbúðinni í Neskaupstað. Fleiri verslanir hafa tvöfaldað sölu sína frá fyrra ári og vel það og í langflestum tilfellum hefur bóksala aukist verulega á milli ára.
Ríflega 200 titlar eru í sölu í verslununum og í verslunum Nettó er miðað við að verðið sé það lægsta á landinu. Verðið í Kjörbúðum og Krambúðum er aðeins hærra til að mæta flutningskostnaði en munurinn er aldrei meiri en 100 krónur í Kjörbúðum eða 200 krónur í Krambúðum.
„Ást á bókum og lestri hefur lengi verið mikilvægur þáttur í sjálfsmynd Íslendinga. Við erum stolt af því að hér eru fleiri skáld og fleiri útgefnar bækur en nokkurs staðar annars staðar (miðað við höfðatölu náttúrulega). Lestur er hins vegar eins og svo margt annað vöðvi sem rýrnar ef hann fær ekki æfingu og því miður sýna kannanir að lestur er á undanhaldi, bæði hjá fullorðnum og börnum, segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir,“ framkvæmdastjóri verslunar‑ og mannauðssviðs Samkaupa.
„Þess vegna vildum við auka aðgengi fólks að bókum fyrir jólin og reyna þannig að auðvelda fólki að minnsta kosti að nálgast bækur og gefa besta harða pakkann sem börn geta fengið. Það er nefnilega ekkert sem jafnast á við að hjúfra sig undir sæng með smákökur, mjólkurglas og góða bók og lesa sig inn í jólanóttina.“
Vinsælustu BARNABÆKURNAR
VINSÆLUSTU FULLORÐINSBÆKURNAR