Um langt skeið hafa verslanir Samkaupa leitað ýmissa leiða til að sporna við matarsóun, en talið er að þriðjungur framleiddra matvæla á heimsvísu fari til spillis. Það er því til mikils að vinna með því að nýta auðlindir okkar betur og vernda umhverfið. Árið 2015 var farið af stað með fyrsta skipulagða verkefnið, „Minni sóun – allt nýtt“, en það felur í sér að vörur sem farnar eru að nálgast síðasta söludag fara sérmerktar á aukinn afslátt til að auka líkur á að þær seljist í tæka tíð.
Starfsfólk Samkaupa er mjög stolt af þeim árangri sem verkefnið hefur skilað, en það hefur m.a. orðið öðrum verslunum hvatning til að hefja sambærilega vinnu hjá sér. Á síðustu tíu árum hefur verkefnum sem þessum fjölgað innan Samkaupa og fyrirferðarmest þeirra núna er „Mataraðstoð gegn matarsóun.“ Það felur í sér að Samkaup vinna með samstarfsaðilum að því að koma matvælum í hendur þeirra sem mesta þörf hafa á. Samkaup hafa unnið með Hjálpræðishernum, Ísafjarðarbæ, Vesturafli á Ísafirði og Lautinni á Akureyri og hefur verkefnið stækkað ört frá upphafi þess árið 2023.
Svokölluðum frískápum hefur einnig fjölgað ört síðustu ár og gefa margar verslanir Samkaupa matvörur í slíka skápa. Þegar matvara er komin fram yfir síðasta söludag, eða er ekki neysluhæf af öðrum ástæðum, er ætlunin að nýta hana til moltugerðar. Tilraunaverkefni í samstarfi við Pure North hefur verið rekið í Krambúðinni í Mývatnssveit, en markmiðið er að setja upp moltuvélar í fjölmörgum verslunum til viðbótar á þessu ári.
Minni sóun – meiri mataraðstoð
Vegna þess hve vel þessi nýrri verkefni eru að ganga, matargjafir og moltugerð, hefur sú ákvörðun verið tekin að hætta að selja vörur á afslætti sem nálgast síðasta söludag í verslunum Samkaupa.
„Það fellur betur að samfélagsstefnu Samkaupa að gefa þessar vörur frekar til viðkvæmustu meðlima samfélagsins og við viljum leggja áherslu á að auka matargjafir í gegnum þau verkefni. Úrgangsstefna Samkaupa er óbreytt að því leyti að við vinnum enn hörðum höndum að því að minnka sóun og sorplosun og munu moltuvélarnar breyta miklu þegar þær verða allar komnar í gagnið,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa.
Breyting á afsláttarkjörum „Minni sóun – allt nýtt“
Á sama tíma hafa Samkaup unnið að bættri innkaupastýringu og stuðlað þannig að nákvæmari pöntunum til þess að minnka matarsóun enn frekar. Með betri innkaupastýringu verður minna magn af mat sem nálgast síðasta söludag í verslun, og vonin er að mest af þeim mat komist í hendur samstarfsaðila. Það sem eftir stendur verður selt á afslætti eins og áður, en nú á breyttum afsláttarkjörum þ.e. á 20% afslætti. Engum neysluhæfum mat er hent.
Þó að afsláttur á „Minni sóun – allt nýtt“ hafi nú lækkað er ekkert lát á afslætti og tilboðum í verslunum Nettó, Kjörbúða og Krambúða, sérstaklega ef viðskiptavinir nýta appið. Verslanir munu áfram bjóða upp á veglegan afslátt og tilboð í appinu alla daga vikunnar, í gegnum helgar- og vikutilboðin, ásamt reglulegu stór-afsláttardögunum.