Leikbreytir fyrir viðskiptavini Samkaupa

Samkaup hefur hafið útgáfu gjafakorta í Gift to wallet vistkerfi Leikbreytis. Samkaup innleiddi Gift to wallet kerfi Leikbreytis fyrir utanumhald, sölu og rekstur gjafakorta Samkaupa og Nettó á dögunum sem er fyrsta skrefið af mörgum í að færa plastkort í wallet og gera notendaupplifun viðskiptavina mun betri þar sem þeir sjá á rauntíma eftirstöðvar á gjafakortinu í símanum og þurfa ekki að hafa áhyggjur af að gleyma plastkortinu heima.

Helsti kostur lausnarinnar er að hægt verður að selja og gefa út gjafakort rafrænt að fullu en um leið kaupa þau í verslun útprentuð með þeim möguleika að setja þau í Apple og Google wallet síðar.

Viðskiptavinir þurfa ekki að bæta við nýju smáforriti eða fá plastkort þar sem kortin fara beint í Apple eða Google Wallet.  Kerfið er því mun umhverfisvænna þar sem það dregur úr útgáfu plastkorta og umbúða sem áður einkenndu gjafakort. Eins opnar þetta á ný markaðstækifæri fyrir Samkaup til að koma skilaboðum til korthafa um t.d. afsláttardaga og sértilboð ásamt því að almennt minna viðskiptavini á að nýta gjafakortið þegar það er nálægt verslunum Nettó.

Öll eldri gjafakort voru færð yfir í lausnina en einn af kostum kerfisins er að hægt er að gefa áfram út gjafakort í prenti en þó þannig að allir korthafar geta bætt kortunum við í Apple og Google Wallet.

„Innleiðing Gift to wallet og útgáfa gjafakortana með hjálp kerfisins er fyrsta skrefið af mörgum en við sjáum fram á að brátt verði viðskiptamannakort, inneignarnótur og starfsmannakort komin inn í kerfið“, segir Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Samkaupa.

„Við erum afar spennt yfir samstarfinu með Samkaup sem eru okkar fyrsti viðskiptavinur á dagvörumarkaði en við höfum margar hugmyndir að útfærslum fyrir dagvöruverslun með Gift to wallet sem er í senn greiðslumiðlunarlausn og vistkerfi. Til að mynda getur Nettó sent gjafakort á afmarkaða hópa sem eininugis gilda í einni verslun hjá þeim í takmarkaðan tíma“, segir Yngvi Tómasson, framkvæmdastjóri Leikbreytis.