Ewa Lizewska Beczkowska, aðstoðarverslunarstjóri í Nettó í Nóatúni, útskrifaðist á dögunum með verslunarpróf frá Verzlunarskóla Íslands, eftir að hafa nýtt sér Fagnám verslunar og þjónustu með aðstoð og stuðningi yfirmanna sinna hjá Samkaupum.
Lokaverkefni Ewu fjallar um lagalega stöðu erlendra starfsmanna og samskipti á vinnustað, sem er nokkuð sem Ewa þekkir mjög vel af eigin reynslu.
„Ég kom til Íslands árið 2007 til að heimsækja þáverandi kærasta minn. Ég er hamingjusöm móðir hinnar 9 ára Izabellu, þó sambandinu við föður hennar hafi lokið fyrir löngu síðan og hann flaug aftur til Póllands.“
Heppin með félagsskap
Eftir að hafa unnið um skeið í þvottahúsi í Suðurveri hóf hún störf í versluninni Samkaup Strax í Suðurveri. „Yfirmaður minn á þessum tíma var Valdimar Guðmundsson sem kenndi mér allt; hvernig á að nota sjóðvélina, töluheitin á íslensku svo ég gæti gefið viðskiptavinum rétt verð og alla helstu kurteisisfrasana. Þar lærði ég líka allar reglur sem fylgja þarf á íslenskum vinnustöðum og í matvöruverslunum almennt.“
Hún skráði sig fljótt á íslenskunámskeið í kvöldskóla í Kópavogi. „Ég hafði frá mörgu að segja og mig langaði mikið að hitta fólk í kringum mig. Stundum komu vinir yfirmanns míns, eiginkona hans eða börn hans að versla og það skapaði fullkomnar aðstæður til þroska og vinalegt andrúmsloft. Ég var mjög heppinn að vera í félagsskap góðs og heiðarlegs fólks. Ég fór í skólann með rútu tvisvar í viku, strax eftir vinnu. Ég kláraði klukkan 21 og fór strax heim til að gera heimavinnu því það var alltaf eitthvað.“
Sá vínarbrauðslengjur þegar hún lokaði augunum
Í Samkaupum fann Ewa tækifæri til framgangs í starfi. Hún flutti sig um set í Nettó í Mjódd, þar sem hún tók við stöðu vaktstjóra og svo flutti hún sig aftur þegar Nettó opnaði verslun á Granda. „Fólk beið fyrir framan húsið í mjög langri biðröð fyrir opnun og ég bakaði vínarbrauðslengjur í 11 klukkutíma. Það var svo mikið áhlaup að þegar ég kom heim og lagðist niður sá ég bara vínarbrauðslengjur þegar ég lokaði augunum!“
Ewu líkar vel starfið og segir það sameina vel líkamlega áreynslu og andlega vinnu. „Ég hef alltaf haft áhuga á innanhússhönnun og þess vegna finnst mér gaman að framstillingu og er mjög góð í því. Auk þess hef ég áhuga á auglýsingum og markaðssetningu og ákvað því að skrá mig á námskeiðið í boði hjá Samkaupum. Ég las á vinnustaðahópnum tilboð um vinnutengt námskeið, þ.e.a.s. Fagnám verslunar og þjónustu í Verzlunaskólanum.“
Tungumálið týnist á leiðinni
Hún segir að námið hafi gefið henni ótrúlega mikið og í raun meira en hún hafi búist við. „Það mikilvægasta sem ég lærði er að þrátt fyrir allt það sem við eigum sameiginlegt erum við öll ólík. Við ættum að koma fram við samstarfsmenn okkar á sanngjarnan hátt, en einnig taka tillit til styrkleika þeirra og veikleika, og treysta þeim.“
Í lokaverkefni sínu skoðaði Ewa stöðu erlendra starfsmanna hjá Samkaupum. Þeir stjórnendur sem hún ræddi við voru allir ánægðir með starfsmenn af erlendum uppruna og segja þá góða starfsmenn, en að skortur sé á íslenskukunnáttu. Aðeins 1 af hverjum 10 erlendum starfsmönnum sem hún ræddi við vegna verkefnisins sögðust upplifa sig sem hluta af íslensku samfélagi. Segir Ewa að þetta hangi saman. „Tungumálið týnist einhvers staðar á leiðinni og íslenskunni er oft skipt út fyrir ensku því allir kunna hana, en án íslenskukunnáttu finnst fólki það vera útilokað.“
Hún segist þakklát fyrir þau tækifæri sem hún hafi fengið á Íslandi og sem starfsmaður Samkaupa. „Allt frá því að ég hóf fyrst störf hjá Samkaupum í Suðurveri hef ég verið afar heppin með yfirmenn, sem hafa lagt sig fram um að hjálpa mér að vaxa í starfi og mennta mig. Sérstakar þakkir fær Gunnur Líf Gunnarsdóttir, sem er framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa en hún hjálpaði mér við að skrá mig í námið og studdi mig alla leið.“
En Ewa er hvergi hætt. „Ég stefni á að læra íslensku sem annað tungumál í Háskólanum á Bifröst og læra síðan stjórnun, því fyrir mánuði síðan var ég gerður aðstoðarverslunarstjóri og flutti úr Nettó Mjódd í Nettó Nóatúni. Það er allt að gerast hjá mér!“