Samkaup drógu úr losun á blönduðum úrgangi um rúm 40% á síðasta ári.

Það þýðir að um 338.601 kg af blönduðum úrgangi rataði í endurvinnslu árið 2024 og fór því ekki í urðun eða landfyllingu.

Blandaður úrgangur er allur sá úrgangur sem ekki fellur í aðra flokka, og á ekki annan endurvinnslufarveg. Hægt er að draga úr blönduðum úrgangi með meiri flokkun og betri úrgangsstjórnun svo sem minni matarsóun.

Farsælt samstarf við Pure North skilað árangri

Samkaup hafa sett sér það markmið að vera leiðandi í losun á dagvörumarkaði frá árinu 2015 þegar fyrirtækið skrifaði undir yfirlýsingu sem afhent var á loftslagsráðstefnunni í París. Mörg stór skref hafa verið stigin síðan þá en fyrirtækið vinnur eftir metnaðarfullri samfélags- og umhverfisstefnu. Árið 2023 gerðu Samkaup samning við Pure North um heildstæða ráðgjöf í úrgangsstjórnun verslana Nettó, Kjörbúða, Krambúða og Iceland um allt land. Hlutverk Pure North hefur því verið að halda utan um og bæta úrgangsstjórnun Samkaupa.

Markmiðið með samningnum er að draga úr sóun með aukinni flokkun á öllum starfsstöðvum samstæðunnar og sýna samfélagslega ábyrgð í verki með gagnsæi í flokkun á sorpi, minna kolefnisspori sem og skilvirkari úrvinnslu á þeim efnum sem falla til. Einnig er hugað að minna kolefnisspori á öllum flutningaleiðum til og frá verslunum og starfsstöðvum Samkaupa.

Stór skref með minni matarsóun og nýjungum

Árið 2024 var áherslan á að minnka matarsóun og draga enn frekar úr losun. Verkefnið gekk vonum framar og dróst losun á blönduðum úrgang saman úr 833.139 kg í 494.538 kg. Það er rúmlega 40% bæting á milli ára. Ýmis stór skref hafa verið tekin meðal annars með því að minnka matarsóun í samstarfi við aðila á borð við Hjálpræðisherinn auk þess sem tækninýjungar á borð við nýja moltuvél hafa stutt við vegferðina.

„Elja og samvinna hefur svo sannarlega skilað sér enda er þetta gífurlegt magn sem við erum að tala um. Úrgangslosun er risastórt vandamál sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir. Eðli málsins samkvæmt fylgir ákveðinn úrgangur því að reka dagvöruverslanir. Það þýðir hins vegar ekki að við getum ekki gert okkar allra besta til þess að koma úrgangi á réttan stað í hringrásinni og draga með öllum okkar mætti úr sóun.  Ég er gífurlega stolt af þessum árangri og hlakka til að halda áfram á næsta ári að minnka fótsporið okkar,“ segir Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála hjá Samkaupum.

Um Samkaup

Samkaup reka 60 verslanir víðs vegar um landið. Þær spanna allt frá lágvöruverðsverslunum til þægindaverslana. Helstu verslanamerki Samkaupa eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin, Háskólabúðin, Iceland og Samkaup strax.