Frá því í janúar hefur verð lækkað í helstu vöruflokkum í Nettó, og mun verslunin halda áfram að spyrna gegn verðhækkunum með markvissum hætti.
Stefna Nettó er að bjóða eftir fremsta megni fjölbreytt vöruúrval á breiðu verðbili, ásamt því að tryggja samkeppnishæft verð á helstu nauðsynjavörum heimilisins. Á þessu ári hefur Nettó endurskoðað verðlagningu í ýmsum vöruflokkum, með það að markmiði að lækka verðið á innkaupakörfunni. Þessi vegferð verðlækkana hefur kallað á mikla vinnu og krafist útsjónarsemi, sér í lagi þegar verðbólga er há og birgjarnir okkar hækka verð frá sér oft á ári.
Við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að halda aftur af verðhækkunum til neytenda með fjölbreyttum hætti. Við höfum kallað eftir samstarfi við birgja, staðið í miklu kostnaðaraðhaldi í rekstri okkar þvert á svið, flutt inn sjálf vörur sem við getum boðið á hagstæðara verði – og svo mætti lengi telja. Þá höfum við einnig tekið töluvert af kostnaðarhækkunum á okkur.
Þrátt fyrir það koma upp tilvik þar sem við höfum ekki tök á að halda aftur af öllum hækkunum og því neyðst til að hækka stundum verð, eins og gerðist í júlí. Langflestar hækkanir hafa verið á vörum sem keyptar eru í gegnum innlenda birgja meðan við höfum getað haldið aftur af verðhækkunum á þeim vörum sem við flytjum sjálf inn. Enda eykst stöðugt eftirspurnin eftir þeim vörum sem við flytjum inn því þar fara saman gæði og hagstæðara verð.
Verðkannanir á vörukörfu, sem unnar voru af verðlagseftirliti ASÍ, sýna að verð lækkaði í ágúst á þeim vörum sem kannanirnar náðu til í Nettó. Þá hækkaði verðið í Nettó minnst allra verslana í apríl, maí og júní. Það er sérstaklega ánægjulegt að verðkannanir séu að staðfesta að þessi vinna okkar er að skila árangri.
Markmið Nettó að vera ódýrast þegar fólk notar appið
Sérstaða Nettó fram yfir aðrar lágvöruverðs-verslanir felst í því að viðskiptavinum er boðið upp á 2% afslátt í formi inneignar í hvert skipti sem verslað er, en appið virkar fyrir allar verslanir Samkaupa, þ.e. líka í Krambúðum, Kjörbúðum og Iceland.
„Markmið okkar er að Nettó verði ódýrust allra verslana með því að nota appið. Með því að safna inneign í hverri innkaupaferð safnast hratt saman myndarleg upphæð sem hægt er að nota jafnt og þétt í næstu innkaupum eða safna saman fyrir sérstök tilefni, eins og grillveislu eða jafnvel jólainnkaup fjölskyldunnar,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs.
Nettó er eina lágvöruverðs-verslunin á landinu sem hefur verið tilboðsdrifin, en nú í haust verður áhersla á „alla daga lágt verð“ með nýjum lægri verðum. Þá förum við úr hefðbundnum afsláttum, og bjóðum í staðinn tilboð í vildarkerfinu í formi inneignar. Þessir „appslættir“ eru þessar auka-prósentur sem bætast við almennu 2% inneignina við kaup á tilboðsvörum. Langflestir okkar viðskiptavina nota appið nú þegar og fá með því appslátt sem nemur tugum prósenta í inneign á barnadögum, vítamíndögum, heilsudögum og með hefðbundnu tilboðunum sem bjóðast í versluninni á hverjum degi.
„Við trúum því að þessi verðstrategía sé sú besta til að tryggja viðskiptavinum okkar að sama lágvöruverðið fáist í öllum 21 verslunum okkar um allt land, hvort sem verslunin er staðsett í Mjódd eða á Ísafirði. Með tilboðsdrifinni strategíu fær viðskiptavinurinn samkeppnishæft verð og safnar á sama tíma inneign sem hægt er að nota í næstu innkaupaferð. Þannig tryggjum við hagstæða hringrás verslunar sem við getum viðhaldið,“ segir Gunnur.