Fulltrúar Samkaupa áttu mjög gott og uppbyggilegt samtal við íbúa Neskaupstaðar á opnum íbúafundi í bænum í gær. Fundurinn var haldinn að frumkvæði íbúa í Neskaupstað til að ræða málefni dagvöruverslunar í bæjarfélaginu, en Samkaup reka þar Kjörbúð.
Fyrir hönd Samkaupa sóttu fundinn þær Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs, Kristín Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Kjörbúða og Rakel Másdóttir, Verkefna- og verðstýringarstjóri. Fundurinn var vel sóttur og var sérstaklega ánægjulegt að heyra hvað fólk í Neskaupstað er ánægt með starfsfólkið okkar og þjónustuna sem það veitir.
Á fundinum var gerð grein fyrir þeim áskorunum sem felast í rekstri dagvöruverslana í fámennari byggðum utan höfuðborgarinnar og hvaða leiðir Samkaup hafa farið til að mæta þörfum og kröfum íbúa, sérstaklega hvað varðar verðlagningu á nauðsynjavörum.
Í Kjörbúðum, eins og þeirri sem er á Neskaupstað, er sama verð á um 1.500 lykilvörum og býðst í verslunum Nettó og það verð er sambærilegt við verð í öðrum lágvöruverðsverslunum. Með því að nota Samkaupsappið býðst svo 2% afsláttur til viðbótar og verður þá verðið í flestum tilfellum það lægst sem býðst á landinu.
Á fundinum komu svo fram ábendingar og athugasemdir um ýmislegt sem betur mætti fara í verslun okkar í Neskaupstað. Má þar nefna bætt aðgengi fyrir hjólastóla, meira og betra úrval á grænmeti og ferskvöru og að auka viðskipti við matvælaframleiðendur í nærsamfélaginu. Þetta eru allt verulega góðar ábendingar og við höfum þegar hafið vinnu við að bregðast við þeim .
Samkaup þakka íbúum Neskaupstaðar kærlega fyrir heimboðið og móttökurnar og hlökkum til að halda áfram uppbyggilegu samtali og samstarfi við þá í framtíðinni.