„Við hjá Samkaupum höfum sett okkur metnaðarfull markmið og viljum vera leiðandi afl á sviði hringrásar og sjálfbærni í matvöruverslun. Pure North er frábær viðbót við samstarfsaðila okkar og mikilvægur hlekkur í skilvirkri vinnu í samfélaginu hvað varðar minnkun úrgangs á landsvísu. Hluti samstarfsins felur í sér uppsetningu á jarðgerðarvélum við verslanir Samkaupa og verður leitast við að koma afurðinni aftur í hringrás þar sem næringarefnin nýtast t.d. við ræktun og uppgræðslu“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa. „Við erum á mjög spennandi vegferð og ég held að þessi hringrásarhugsun muni breyta hugsunarhætti í verslunarrekstri á Íslandi og vonandi stuðla að breyttu hugarfari í samfélaginu í heild.“
Markmiðið með samningnum er að draga úr sóun með aukinni flokkun á öllum starfsstöðvum samstæðunnar og sýna samfélagslega ábyrgð í verki með gagnsæi í flokkun á sorpi, minna kolefnisspori sem og skilvirkari úrvinnslu á þeim efnum sem falla til. Einnig verður hugað að minna kolefnisspori á öllum flutningaleiðum til og frá verslunum og starfsstöðvum Samkaupa.
Sérfræðingar Pure North munu heimsækja starfsstöðvar Samkaupa og gera þar ítarlega úttekt á ferlum, kostnaði og árangri í flokkun. Gerð verður þarfagreining og í kjölfarið verður nýr vélbúnaður og nýir verkferlar innleiddir til söfnunar og meðhöndlunar á lífrænum úrgangi sem fellur til í verslunum. Þá verður unnið að því að draga úr kostnaði og auka flokkunar- og endurvinnsluhlutfall m.a. með tilnefningu grænna fyrirliða í hverri verslun.
„Með þessu samstarfi eru Samkaup að sýna þann metnað sem þarf til að gera róttækar breytingar í rekstri og ná þannig markmiðum sínum í umhverfis- og loftslagsmálum, en einnig til að styðja við hringrásarhagkerfið. Við erum stolt af því að fylgja Samkaupum á þessari vegferð og erum sérlega ánægð með áherslu þeirra á samstarf við hagaðila í hverju samfélagi fyrir sig og gagnsæi í öllu umbótaferlinu, því við teljum að það sé grundvöllur árangurs í verkefnum sem þessum. Við hlökkum til að vinna að betri framtíð með Samkaupum,“ sagði Börkur Smári Kristinsson, nýsköpunar- og þróunarstjóri hjá Pure North.
Um Samkaup
Samkaup reka 64 matvöruverslanir á Íslandi undir vörumerkjum Nettó, Iceland, Kjörbúðar, og Krambúðar. Samkaup starfa á íslenskum dagvörumarkaði, grunnur í þjónustu Samkaupa er fjölbreytni og sveigjanleiki til þess að uppfylla hinar ýmsu þarfir viðskiptavina sem og tengsl við viðskiptavini í öllum byggðum landsins. Samkaup leggja áherslu á samfélagslega ábyrgð í allri starfseminni, sem endurspeglar metnað fyrirtækisins til að vera traustur og virkur þátttakandi í samfélaginu og stuðla að aukinni hringrásarhugsjón í fyrirtækinu og samfélaginu í heild.
Um Pure North
Pure North er umhverfistæknifyrirtæki sem rekur einu plastendurvinnslu landsins í Hveragerði. Þá býður Pure North ráðgjöf til fyrirtækja og sveitarfélaga í úrgangsstjórnun þar sem innleiðing skilvirkra og praktískra lausna í úrgangsmeðhöndlun er í fyrirrúmi. Fyrirtækið leggur mikið uppúr þróunarvinnu sem miðar að því að koma nýjum lausnum, bæði í hugbúnaði og vélbúnaði, í virkni svo hægt sé að ná besta mögulega árangri í úrgangsstjórnun hverju sinni.