Mikil áhersla er lögð á að starfsfólki líði vel og er það hvatt til að nýta sér þær mörgu leiðir sem Samkaup bjóða upp á til vellíðunar og framgangs, bæði í starfi og persónulega. Þar má helst nefna víðtæka velferðarþjónustu og öflugar námsleiðir sem standa öllu starfsfólki til boða.
Eftirsóknarvert að vinna hjá Samkaupum
„Við viljum að eftirsóknarvert sé að starfa hjá Samkaupum og því tekur starfsfólkið okkar þátt í að þróa og bæta starfsumhverfi sitt,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs. „Samskipti og samtal innan hópsins eru starfsmönnum Samkaupa mikilvæg, en vegna Covid hefur slíkt verið í lágmarki síðustu tvö ár. Haustið 2021 tókst okkur til að mynda að halda lykilfundi með starfsfólki Samkaupa á tíu mismunandi stöðum á landinu þar sem stjórnendur hittu starfsmenn verslana og áttu með þeim notalega kvöldstund og gott spjall um framtíðina, áskoranirnar og tækifærin fram undan,“ segir Gunnur.
„Meginmarkmið Samkaupa er að vera eftirsóknarverður vinnustaður, þar sem áhersla er lögð á jákvæða og heilbrigða menningu, jafnrétti og sterka liðsheild, auk þess sem við höfum lagt okkur fram um að hvetja starfsfólk til aukinnar menntunar og við viljum virkja fólk til að bæta við sig þekkingu. Við höfum mótað öfluga menntastefnu sem mætir starfsfólki hvar sem það er, hvort sem er vettvangur símenntunar, eða í tengslum við hið formlega menntakerfi þar sem starfsfólk hefur tækifæri til að mennta sig samhliða vinnu, með stuðningi Samkaupa.“
Eitt stærsta vildarkerfi á Íslandi í dag
Um mitt ár 2021 var Samkaupaappinu ýtt úr vör og óhætt er að segja að það hafi slegið í gegn. Í árslok 2021 voru notendur orðnir um 40.000 og 20% af sölu verslana fóru í gegnum appið. Þar með er appið orðið að einu stærsta vildarkerfi á Íslandi í dag, sem býður viðskiptavinum upp á afslátt í formi inneignar, sem hann getur síðan nýtt í næstu verslunarferð.
„Við höfum verið öflug í að tileinka okkur tæknina og viljað vera leiðandi þegar kemur að nýstárlegum leiðum til að mæta viðskiptavinum okkar. Netverslunin sem fór í loftið 2017 hefur heldur betur vaxið og hvert metið slegið á fætur öðru í nýtingu hennar í fyrra. Vissulega var um að ræða heimsfaraldur með tilheyrandi samkomutakmörkunum, en við finnum fyrir því að neytendahegðunin hefur breyst til langframa og hlökkum til að stíga næstu skref í þessari vegferð, enda mikil gróska í nýsköpun og nýtingu á tækninni sem verður spennandi að bjóða upp á fyrir viðskiptavini árið 2022,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs.