Fyrir rúmlega hálfu ári tóku verslanir Samkaupa nýtt app í notkun fyrir viðskiptavini sína þar sem þeim bjóðast bæði sérkjör auk þess að safna fríðindum. Þá er jafnframt hægt að borga í gegnum appið. Í dag fer 20% af sölu verslana fyrirtækisins í gegnum appið og í einni verslun er hlutfallið komið upp í 60%.
Samkaup rekur um 60 verslanir um landið undir merkjum Nettó, Kjörbúðarinnar, Krambúðarinnar, Háskólabúðarinnar, Iceland og Samkaup strax.
40 þúsund notendur
Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, segir í samtali við mbl.is að félagið sé þegar komið um hálfa leið í átt að upphaflegum markmiðum sínum með appið, en gert hafði verið ráð fyrir að það myndi jafnvel taka nokkur ár.
„Þetta er vegferð sem var teiknuð upp til langstíma. Við erum komin hálfa leið miðað við það sem við töldum okkur geta farið með appið og það á aðeins 6 mánuðum,“ segir Gunnar. Þegar eru tæplega 40 þúsund notendur að appinu og segir Gunnar að um 70% noti appið aftur eftir fyrstu tilraun.
Fengu jólagjöfina í gegnum appið
Innleiðing á appinu hófst fyrir jólin í fyrra. Fengu starfsmenn fyrirtækisins sendar upplýsingar um tilraunaaðgang þann 11. desember í fyrra, en jólagjöf fyrirtækisins kom jafnframt sem inneign í appinu. Gunnar segir að á fyrstu vikunni hafi því 98% starfsfólksins sótt appið og í framhaldinu verið með í prófun fram í apríl þegar það var kynnt fyrir viðskiptavinum.
Gunnar segist gera sér grein fyrir því að meirihluti appa endi í ruslinu og fái litla sem enga notkun. Því hafi mikill undirbúningur farið í appið og útgáfu þess til að það færi á flug. „Við vildum ekki enda með þessa fjárfestingu í ruslinu,“ segir hann og því hafi mikið verið lagt upp úr því að virkja bæði starfsfólkið sem og að fá strax fastan vildarviðskiptavinahóp sem notar appið. Það hafi meðal annars verið gert með því að láta starfsfólk aðstoða viðskiptavini í búðum með notkunina, auglýsingaherferðum og svo með allskonar tilboðum sem aðeins voru í boði í appinu.
Jóladagatalið best heppnaða markaðsátakið
Núna í desember fór fyrirtækið meðal annars af stað með jóladagatal sem Gunnar segir að hafi aukið notkun gríðarlega. Hugmyndin sé að hafa eina vöru á sérkjörum hvern einasta dag, en vörurnar eiga það sammerkt að vera meðal hefðbundinna vörukaupa heimila fyrir jólin. „Jóladagatalið er best heppnaða markaðsaðgerðin í tengslum við appið og bara besta markaðsaðgerð hjá fyrirtækinu frá upphafi ásamt heilsudögum Nettó,“ segir hann. Sem dæmi nefnir Gunnar að fyrsta daginn hafi verið tilboð á íslensku konfekti og þann dag hafi salan jafngilt 30% af allri konfektsölu í desember í fyrra.
Hæsta hlutfallið á Skagaströnd
Í dag fer 20% af sölu verslana fyrirtækisins í gegnum appið og segir Gunnar að hjá mörgum verslunum sé hlutfallið mun hærra. Þannig sé hlutfallið 60% hjá einni verslun á landsbyggðinni, en það er á Skagaströnd. Segir hann að þar hafi starfsfólkinu strax litist vel á appið og ákveðið að keyra notkunina á því áfram.
Þar sem Gunnar talar um að vera kominn hálfa leið með appið leikur blaðamanni forvitni að vita hvað það að fara alla leið feli í sér. Gunnar segir að nýlega hafi öllum markaðsbæklingum verið komið í appið og fljótlega á nýju ári verði svo opnað fyrir leiki þar sem fólk geti unnið sér inn inneign og notað í búðunum. Fyrir sumarið eigi svo að koma upp innkaupalistum.
Notendur appsins eru sem fyrr segir orðnir tæplega 40 þúsund. Gunnar segir það vel umfram björtustu væntingar, en að út frá notkuninni sé hann nú farinn að gæla við að hægt sé að ná 100 þúsund notendum á næstu árum.
Persónuleg tilboð á teikniborðinu
Appið er í grunninn það sama og Coop verslunarkeðjan í Danmörku notar, en hún er samstarfsaðili Samkaupa. Gunnar segir að Samkaup hafi svo aðlagað appið að sínum þörfum. Í Danmörku hafi Coop fyrir nokkru innleitt persónuleg tilboð. „Það er eitthvað sem okkur finnst mjög spennandi að gera á næstu tveimur árum,“ segir Gunnar. Þannig aukist verðmæti fyrir viðskiptavini mikið þegar hann geti fengið sér tilboð sem höfði til hans.
Þegar kemur að markaðssetningu sem beinist beint að ákveðnum einstaklingum vakna alltaf upp spurningar um persónuvernd og hvernig farið er með gögn. Gunnar segir að þegar Samkaup skrifuðu undir samning við Coop um appið hafi hann verið ein blaðsíða. Hins vegar hafi persónuverndarákvæði sem fylgdu samningnum verið 48 blaðsíður. „Það hefur enginn sérstakan áhuga á að komast í gögn sem eru of nálægt viðskiptavininum,“ segir hann og bætir við að einu grunnupplýsingarnar sem yrðu safnað væru aldur, kyn og búseta.
Gunnar segir þetta hins vegar bjóða upp á mikla möguleika. Þannig nefnir hann sem dæmi að það skipti sjaldnast máli hversu mörg tilboð eða auglýsingar viðskiptavinur sér um kaffi ef hann drekkur ekki kaffi. Niðurstaðan er að hann muni ekki kaupa kaffið. Ef viðkomandi drekki hins vegar te sé hægt að beina einungis te auglýsingum að honum og sleppa þannig áreiti af óþarfa auglýsingum.
Sjá á mbl.is